ÍSLENSKA KYUDOFÉLAGIÐ

FORSÍÐA

KYUDO

ÁSTUNDUN

VIÐBURÐIR

TENGILIÐIR

KYUDO: Japönsk bogfimi - Annað og meira en íþrótt

Kyudo er ein af mörgum greinum sem oft eru nefndar bardagalistir eða "martial arts". Þetta er þýðing á japanska hutakinu Budo. Hugtakið er samsett úr tveimur táknum eða Kanji, Bu-stríð og Do/Michi-leið eða aðferð. Líklega er réttast að nota hugtakið stríðslist þrátt fyrir að nútíma Budo hafi ekki önnur tengsl við hernað en upprunann. Ég kýs hins vegar að nota hugtakið Budo vegna þeirrar merkingar og skírskotunar sem það hefur í japansa sögu og menningu.

Awa Kenzo Sensei

Kyudo er ásamt Kendo, japönsku skylmingunum elst af núverandi Budo-greinum og á sér meira en þúsund ára sögu. Þrátt fyrir að japanski boginn, Yumi hafi upphaflega verið notaður í hernaði var hann snemma einnig notaður við hátíðahöld og trúarathafnir. Japanski boginn er langbogi, rúmlega tveir metrar á lengd og mikil völundarsmíð. Hefðbundið er hann búinn til úr sérvöldum bambusi og viði. Helstu bogasmiðir koma frá syðstu eyju Japan, Kyushu. Þar eru skilyrði til bambusræktunar sérlega góð. Örvar eru einnig búnar til úr bambus og hanskar sem notaðir eru við að skjóta af boganum eru úr skinni.

Eftir að hætt var að nota boga og sverð til hernaðar með tilkomu skotvopna varð nútíma Budo til. Aðrar þekktar greinar Budo eru til dæmis Judo, Karate-do og Aikido. Þessar greinar eru auðvitað mjög vinsælar í Japan og á heimsvísu. Kyudo og Kendo eiga þó dýpstar rætur í japanskri sögu og menningu vegna uppruna síns og aldurs. Þessar greinar eru samofnar sögu og þróun japönsku stríðsmannanna, Samurai á liðnum öldum. Samuraiarnir voru ekki aðeins hermenn í nútíma skilningi þess orðs heldur önnur æðsta stétt japansks samfélags fram til ársins 1868 þegar nútímavæðing Japans hófst fyrir alvöru. Samuraiarnir fylgdu ströngum siðareglum þar sem m.a. var lögð áhersla á hugrekki og hollustu. Hluti af þjálfun þeirra og menningu var að leggja stund á listgreinar af ýmsu tagi, einkum ritlist og heimspeki. Úr röðum þeirra komu einnig þekkt skáld og listamenn. Nútíma Budo er þannig afsprengi sögu Samuranna og sú hugmyndafræði sem það byggir á er vel lýst í Budo-Charter eða Budosáttmála sem helsu greinar nútíma Budo hafa komið sér saman um. Þar má greina helstu markmið með iðkun Budo og þær reglur sem um það gilda.